Afþreying í nágrenni Bláa Lónsins

Gerðu meira úr heimsókninni og uppgötvaðu ótal hluti sem hægt er að gera í nágrenni Bláa Lónsins

ÁHUGAVERÐIR STAÐIR

Seltún Seltún er tilkomumikið og litríkt háhitasvæði þar sem göngupallar gera þér kleift að fara í súrrealískt ferðalag innan um búbblandi leirhveri, gufuaugu, steinefnaútfellingar og sjóðandi vatnspolla.

Áætluð akstursfjarlægð frá Bláa Lóninu: 30 mínútur

Gunnuhver Gunnuhver er stærsti leirhver á Íslandi og þar er allt krökkt af undursamlegum jarðhitafyrirbærum. Gufa og rokgjarnir vökvar stíga upp úr steinefnaríkum jarðvegi þar sem göngupallar liggja þvert og endilangt í landslagi sem er líkt og af öðrum heimi. Þarna stendur þú augliti til auglitis við brennandi, ummyndandi krafta eldvirkrar jarðar.

Áætlaður aksturstími frá Bláa Lóninu: 20 mínútur

Brimketill Mikilfenglegur, náttúrulegur pottur með kristaltærum sjó sem ógnarkraftur hafsins hefur mótað í klettavegginn. Brimketill er einstakt og óvenjulegt náttúrufyrirbæri á að líta. Þegar staðið er á útsýnispallinum fyrir ofan verða gestir gjarnan fyrir gusum frá miskunnarlausum öldum Norður-Atlantshafsins. Hér gera ólgandi sjávarföllin það að verkum að gæta þarf ítrustu varúðar.

Áætlaður aksturstími frá Bláa Lóninu: 15 mínútur

Reykjanesviti Reykjanesviti er elsti vitinn á Íslandi, reistur árið 1908. Þar sem hann gnæfir 70 metra yfir sjávarmáli á mörkum eldstöðvakerfa Reykjaness og hins óendanlega bláa sjóndeildarhrings Norður-Atlantshafsins, hefur þessi táknræna bygging áhrifamikla og róandi nærveru í hrífandi og oft harðneskjulegu landslaginu.

Áætlaður aksturstími frá Bláa Lóninu: 25 mínútur

Hvalsneskirkja Kirkjan var reist úr byggingarefni úr nærumhverfinu. Útveggirnir eru úr grágrýti (basalti), sem sótt var í nærliggjandi klappir og hoggið til, og innviðir eru að stórum hluta úr rekaviði af ströndinni. Hvalsneskirkja var vígð árið 1887 og hefur síðan þá verið vel við haldið og varðveist einstaklega falleg. Í kirkjugarðinum við hliðina er að finna grafir allt frá 17. öld, merkastur telst legsteinn Steinunnar Hallgrímsdóttur sem dó á fjórða ári 1649. Hún var dóttir Guðríðar Símonardóttur (Tyrkja-Guddu) og séra Hallgríms Péturssonar sálmaskálds sem þjónaði í Hvalsnessókn 1644–1651.

Áætlaður aksturstími frá Bláa Lóninu: 34 mínútur

Stafnes Á 17. og 18. öld var Stafnes einn umsvifamesti útgerðarstaður landsins. Fylgifiskur þess að vera miðdepill skipaumferðar var óhjákvæmilega sá að mörg fley fórust eða skemmdust í skerjunum við Stafnes. Árið 1928 strandaði togarinn Jón forseti við Stafnes og 15 af 25 mönnum í áhöfn hans fórust. Við Stafnes stendur 8 metra hár gulur viti sem er óbrigðult kennileiti, hann var byggður árið 1925.

Áætlaður aksturstími frá Bláa Lóninu: 36 mínútur

Krýsuvík Undursamlegt jarðhitasvæðið í Krýsuvík er fullt af lífi með vatnshveri, sjóðandi leirhveri og gufuaugu; það skartar líflegum rauðum, gulum og grænum litum hins steinefnaríka jarðvegs. Í aðeins örfárra kílómetra fjarlægð má finna tvö af glæsilegri stöðuvötnum landsins, Grænavatn og Kleifarvatn, sem bæði eru í leifum sprengigíga sem hafa orðið til í eldgosum.

Áætlaður aksturstími frá Bláa Lóninu: 31 mínútur

Brúin milli heimsálfa Standandi þvert yfir Mið-Atlantshafshrygginn – á flekaskilum Norður-Ameríku og Evrasíu – býður þessi göngubrú gestum sínum að ganga á milli tveggja heimsálfa. Einnig má ganga um sprunguna undir brúnni sem veitir alveg einstaka og undarlega friðsæla upplifun á jarðeðlisfræðilegum kröftum móður jarðar.

Áætlaður aksturstími frá Bláa Lóninu: 22 mínútur

Kleifarvatn Kleifarvatn er stærsta stöðuvatnið á Reykjanesskaganum. Ekkert vatn sést renna í eða úr Kleifarvatni þar sem megnið af vatninu streymir inn í það og út neðanjarðar. Stórbrotið og tignarlegt útsýnið við vatnið er ótrúlega heillandi. Hraunið umhverfis vatnið er oft sagt vera einstakt, þar hefur grjótið mótast af eldgosum og jarðskjálftum.

Áætlaður aksturstími frá Bláa Lóninu: 36 mínútur

GÖNGUFERÐIR

Í Bláa Lóninu getur þú aukið við upplifunina með því að fara í labbitúr eða langar gönguferðir. Auk þess býður Retreat upp á úrval af lengri og styttri gönguferðum til að kynnast ýmsu áhugaverðu sem er að finna í landslaginu umhverfis Bláa Lónið. Hver þessara ferða er hönnuð sem ferð með leiðsögn en þér stendur til boða að kanna gönguleiðirnar upp á eigin spýtur.

Með hliðsjón af hve lengri gönguferðir taka langan tíma er hótelgestum boðið að taka með sér nestispakka til ferðarinnar.

Söguganga Þetta er létt ganga sem nær yfir nánasta umhverfi Bláa Lónsins; hér er gengið meðfram heillandi vatnssýn framan við mannvirki Bláa Lónsins sem leið liggur gegnum 2.000 ára gamla hraunbreiðu. Göngunni lýkur í grennd við Silica hótelið og Rannsóknar- og þróunarmiðstöð Bláa Lónsins, gangan veitir þér örlitla innsýn í sögu og þróun Bláa Lónsins.

Vegalengd: 1,6 km Tímalengd: 30 mín. Erfiðleikastig: mjög auðvelt

Ganga í Selskóg Í þessari ferð er gengið meðfram heillandi vatnssýn framan við mannvirki Bláa Lónsins sem leið liggur gegnum 2.000 ára gamla hraunbreiðu þar til komið er að Silica hótelinu og Rannsóknar- og þróunarmiðstöð Bláa Lónsins. Þaðan er haldið í suður í átt að Selskógi sem er friðsæll skógarlundur við rætur fjallsins Þorbjarnar.

Vegalengd: 4,5 km Tímalengd: 1 klst. 16 mín. Erfiðleikastig: auðvelt

Ganga í hrauni Fylgt er stíg gegnum aldagamlar hraunbreiður vestan við Bláa Lónið, inn í hjarta friðlýsts landslags – svæðis sem er ríkt af jarðfræðilegum töfrum. Gangan hefst við Retreat og liðast síðan um tvö samleitin hraun, Illahraun og Eldvarpahraun, og liggur gegnum ótrúlegt sjónarsvið eldstöðvakerfa.

Vegalengd: 9,5 km Tímalengd: 2 klst. 30 mín. Erfiðleikastig: miðlungs

Ganga í hrauni Gengið er upp á topp á þessu 243 metra háa móbergsfelli sem varð til á ísöld við gos undir jökli. Við það myndaðist mikil sigdæld á toppi fjallsins en þar setti breski herinn upp bækistöð í seinni heimsstyrjöldinni sem enn má sjá ummerki eftir. Efst á fjallinu eru nokkur möstur, það hæsta er um 40 metra hátt. Frábært útsýni er af fjallinu yfir jarðhitasvæðin í kring, stóran hluta Reykjaness auk endalausrar víðáttu hafsins – í fjarska má svo sjá dáleiðandi útlínur hins sögufræga Snæfellsjökuls handan við flóann. Það eru þrjár mismunandi erfiðar leiðir upp á fjallið sem allar liggja að sama staðnum með frábæru útsýni.

A: 10 km / 3 tímar / auðvelt B: 12,5 km / 4 tímar / miðlungs C: 7 km / 2 tímar / erfitt (brattur slóði) Hækkun: 229 m

AFREYING

Kvikan Grindavík Kvikan er staðsett í Grindavík, heimabæ Bláa Lónsins. Grindavík er fræg fyrir útgerð gegnum aldirnar og hefur verið eitt helsta verkunarpláss saltfisks allt fram á þennan dag. Það þarf varla að taka það fram að Lava restaurant í Bláa Lóninu fær allan sinn ferska fisk frá Grindavík. Kvikan býður upp á einstaka upplifun og innsýn í heim fiskveiðanna með sýningu um saltfisk þar sem áherslan er á söguna, skipin, veiðarnar og daglegt líf sjómanna fyrr á öldum. Auk sýningarinnar um saltfiskinn geta gestir skoðað sýningu sem fjallar um orku jarðarinnar; jarðhitavirkni, jarðskjálfta og eldsumbrot.

FJÓRHJÓLAFERÐIR Það er þess virði að verja nokkrum hresslegum klukkutímum í að aka um hraunbreiður, svartar sandstrendur, rauða malarvegi og undurfurðulegt fjalllendi sem minnir á tunglið. Krefjandi ferðalag sem skilur mikið eftir sig. (Vinsamlega athugið: skilyrði er að hafa gilt ökuskírteini).

HESTAFERÐIR Kannaðu Reykjanesskagann sitjandi á hestbaki þar sem farið er um töfrandi eldfjallalendur og riðið eftir hrífandi strandlengjum. Upplifðu stórbrotið landslagið í reiðtúr á íslenskum hesti sem býr yfir ótrúlegum styrk og einstaklega ljúfu geðslagi.

VÍKINGAHEIMAR Víkingaheimar er safn í Reykjanesbæ sem leggur megináherslu á sögu víkinganna. Þekktasti hluturinn á safninu er eftirlíking af Gaukstaðaskipinu sem fannst í Noregi árið 1882. Þetta víkingaskip ber nafnið Íslendingur og það sigldi um síðustu aldamót yfir Atlantshafið til L‘Anse aux Medows á Nýfundnalandi og þaðan til New York í tilefni þess að þúsund ár voru liðin frá landafundum Leifs Eiríkssonar. Gestir safnsins geta einnig skoðað sýninguna Víkingar Norður-Atlantshafsins sem unnin var í samstarfi við Smithsonian-stofnunina í Washington D.C. Þetta safn er heimsóknarinnar virði fyrir þá sem vilja fræðast um líf víkinga og kynna sér hluti sem þeim tengjast og hafa fundist við fornleifarannsóknir á Íslandi.

GARÐSKAGAVITI Gamli vitinn á Garðskaga er einn af vinsælustu áfangastöðum ferðafólks á Reykjanesi. Vitinn, sem var byggður árið 1897, býður upp á stórfenglegt útsýni yfir Atlantshafið. Auk þess að heimsækja vitann geta gestir fengið sér göngutúr í fjörunni sem er í þægilegri nálægð við hann. Þarna má gjarnan sjá til hvala, höfrunga eða sela.

ROKKSAFN ÍSLANDS Þegar komið er flugleiðis til Íslands er fyrsti áfangastaðurinn Reykjanesbær, sem oft er talað um sem Keflavík. Reykjanesbær er þekktur fyrir að vera uppeldisbær margra vinsælustu tónlistarmanna og hljómsveita landsins. Eins og vitnað er um á vefsíðu safnsins er Rokksafn Íslands heillandi, fjölskylduvæn og gagnvirk sýning þar sem hægt er að rölta um og kynna sér sögu dægurtónlistar á Íslandi. Safnið er byggt upp í kringum tímalínu í sögu íslenskrar tónlistar, allt frá 19. aldar klassík til stjarna dagsins í dag á borð við Björk, Of Monsters and Men, SigurRós, Kaleo og marga fleiri. Keflavík hefur undanfarna áratugi gjarnan verið kölluð „Bítlabærinn“ í daglegu tali.

Talks about

Aðrar sögur

Blue Lagoon

Húðmeðferð Bláa Lónsins

17. ágúst 2021

Blue Lagoon

Hvers vegna er Bláa Lónið blátt?

16. ágúst 2021

Blue Lagoon

Hvað gerir Bláa Lónið að einu af undrum veraldar?

14. maí 2020

Blue Lagoon

Bestu staðirnir til að taka myndir í Bláa Lóninu

30. apríl 2020

Bláa Lónið

Endurnærandi ævintýraferð um Reykjanesið

10. feb. 2022

Blue Lagoon

Kort af Bláa Lóninu

3. mars 2020

Bláa Lónið Norðurljósavegur 9 240 Grindavík Sjá á korti

+354 420 8800

Hafa samband

Mín bókun