Bláa Lónið Umhverfisfyrirtæki ársins 2021
Sjálfbærni er kjarni og uppspretta Bláa Lónsins. Fyrirtækið hefur að leiðarljósi að fullnýta auðlindastrauma úr iðrum jarðar frá nærliggjandi jarðvarmaveri til að skapa verðmæti sem koma fram í upplifun gesta þess sem og í framleiðslu á vörum. Þessi hugmyndafræði endurspeglast í hönnun á upplifunarferlum, vörum og byggingum sem er ávallt í sátt við umhverfið. Allur rekstur Bláa Lónsins er þannig samofinn fjölnýtingu þessara dýrmætu auðlindastrauma og er einstakt dæmi, á heimsvísu, um margþætta nýtingu endurnýjanlegrar jarðvarmaauðlindar og sjálfbæra þróun.
Viðurkenningar Bláa Lónið er eitt þekktasta vörumerki landsins og ein þekktasta heilsulind heims. Bláa Lónið hefur byggt upp fjölþætta þjónustu og vörur sem byggja á jarðvarmaauðlindinni í Svartsengi. Fyrirtækið hefur vakið athygli um víða veröld og hlotið fjölda viðurkenninga fyrir einstaka upplifun og uppbyggingu á svæðinu en á síðustu tveimur árum hefur félagið hlotið 28 alþjóðleg verðlaun eða viðurkenningar. Bláa Lónið er á lista National Geographic sem eitt af 25 undrum veraldar þar sem undrið er jarðsjórinn sjálfur og einstakir eiginleikar hans.
Árlega heimsækja Bláa Lónið á aðra milljón gesta sem njóta þess að upplifa þessar einstöku náttúruauðlindir. Í kringum lónið hefur verið byggð upp fjölþætt þjónusta og vörur; þar eru tvö hótel, veitingastaðir og verslanir. Fyrirtækið hagar sínum byggingarframkvæmdum ávallt þannig að sem minnst rask verði á umhverfinu (viðkvæmum mosa og hrauni) og að byggingarnar falli inn í umhverfið.
Sjálfbær nýting Bláa Lónið hefur byggt upp einstakt Rannsókna- og þróunarsetur á athafnasvæði sínu í Svartsengi þar sem fer fram framleiðsla á lífvirkum efnum úr jarðsjónum til notkunar í húðvörur fyrirtækisins, Blue Lagoon Skincare. Sjálfbær nýting auðlindarinnar byggist á hringrásarhagkerfi, svokölluðum visthring jarðsjávar, geothermal ecocycle, þar sem Bláa Lónið nýtir jarðsjó, gufu og koltvísýring (CO2) sem fellur til við framleiðslu á grænni jarðvarmaorku, sem er einnig nýtt í reksturinn.
Bláa Lónið er eitt af þeim fyrirtækjum sem mynda svokallaðan Auðlindagarð og byggja rekstur sinn á nýtingu auðlindastrauma frá ofangreindu jarðvarmaveri. Bláa Lónið er stærsta fyrirtækið í Auðlindagarðinum en þar starfa fyrirtæki sem nýta jarðvarmastrauma frá nærliggjandi orkuverum HS Orku. Bláa Lónið er hins vegar eina fyrirtækið sem nýtir alla auðlindastrauma þeirra.
Jarðsjórinn er fjölnýttur í rekstri fyrirtækisins og að lokum er honum skilað niður í jarðlögin og þannig aftur inn í hringrásarkerfið. Gufan er notuð til að framleiða sjávarsalt úr jarðsjónum og koltvísýringurinn nýttur til að næra blágræna örþörunga sem einangraðir voru úr einstöku vistkerfi lónsins og eru ræktaðir í Rannsókna- og þróunarsetri fyrirtækisins. Þörungarnir eru eitt lykilhráefnið í húðvörum Bláa Lónsins. Bláa Lónið er eina fyrirtækið í heiminum sem nýtir afgas/koltvísýring frá jarðvarmaveri með þessum hætti í örþörungaræktun til framleiðslu á lífvirkum efnum í húðvörur.
Nýting aðfanga
Bláa Lónið hefur ávallt unnið að því að draga úr sóun og lágmarka umhverfisspor sitt og tileinkað sér sýn Auðlindagarðsins: Samfélag án sóunar. Fyrirtækið hefur markað sér skýra stefnu í umhverfismálum með megináherslu á að auka sjálfbæra nýtingu auðlindanna, draga úr plastnotkun og koltvísýringslosun. Fyrirtækið hefur kolefnisjafnað allan rekstur sinn síðan 2019 með ræktun áðurnefndra þörunga og plöntun trjáa, m.t.t. eldsneytisnotkunar, orkunotkunar, rútuferða starfsfólks, meðhöndlun úrgangs, flugferða og nýverið flutnings á húðvörum frá vöruhúsum erlendis til neytenda. Kolefnisbókhald fyrirtækisins er vaktað og plastspor þess kortlagt til að keyra áfram stöðugar umbætur í rekstri og draga úr áhrifum þess á umhverfið. Bláa Lónið vinnur með PureNorth í að finna leiðir til að endurvinna plast á Íslandi, eins og kostur er.
Bláa Lónið hefur allt frá stofnun fyrirtækisins lagt ríka áherslu á rannsóknir á vistkerfi lónsins, sérstöðu þess og virkni þeirra náttúrulegu efna sem þar er að finna. Klínískar rannsóknir á lækningamætti lónsins á psoriasis hafa verið unnar um áratuga skeið. Rannsóknirnar hafa leitt í ljós virkni náttúrulegra efna Bláa Lónsins gegn öldrun húðarinnar og hafa niðurstöður þeirra verið birtar í ritrýndum vísindaritum. Húðvörur Bláa Lónsins, Blue Lagoon Skincare, byggja á jarðsjónum og virkum innihaldsefnum hans. Fyrirtækið hlaut á síðasta ári COSMOS- vottun útgefna af hinum virta alþjóðlega úttektaraðila ECOCERT, en COSMOS (COSMetic Organic and natural Standard) er snyrtivörustaðall með ríka áherslu á umhverfisvernd í framleiðsluháttum snyrtivara; með ábyrga nýtingu auðlinda m.t.t. fjölbreytileika lífs (e. biodiversity) og gæði hráefna með velferð neytenda og umhverfissjónarmið að leiðarljósi. Bláa Lónið framleiðir COSMOS APPROVED hráefni í sínar húðvörulínur sem seldar eru um allan heim og hóf nýverið framleiðslu á nýrri BL+ vörulínu sem vinnur gegn öldrun húðarinnar og styður við heilbrigði hennar. Þær vörur eru COSMOS NATURAL vottaðar og hafa meðal annars hlotið verðlaun ELLE 2021 Green Beauty Stars á sviði sjálfbærra snyrtivara.
Innra umhverfi
Á krefjandi tímum í ferðaþjónustu vegna COVID-19 lagði Bláa Lónið áherslu á uppbyggingu innviða til að styrkja stöðu þess til framtíðar. Miklar umbætur voru gerðar á aðstöðu fyrirtækisins og stjórnkerfi þess endurbætt m.t.t. gæði þjónustu og vara, umhverfisvernd og öryggi og heilsu gesta og starfsfólks, með aukna áherslu á sjálfbærni og samfélagslega ábyrgð. Í lok júní á þessu ári lauk fyrirtækið viðamikilli úttekt á vegum British Standards International (BSI) á stjórnkerfinu samkvæmt alþjóðlegu stöðlunum ISO9001, ISO14001 og ISO45001 fyrir allan rekstur Bláa Lónsins og dótturfélags þess, Bláa Lónið Heilsuvörur. Úrvinnsla úttektarinnar stendur yfir hjá BSI í Bretlandi en vottorð eru væntanleg á næstu dögum. Að auki hefur fyrirtækið innleitt Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, leiðarvísir að sjálfbærari heimi árið 2030 og vinnur markvisst að þeim. Með þessu vill fyrirtækið vera fyrirmynd og leiðandi í að byggja upp örugga og gæðadrifna ferðaþjónustu á Íslandi með ríka áherslu á umhverfisvitund, verndun og virðingu gagnvart náttúruauðlindum landsins.
Þá hefur fyrirtækið ætíð átt farsælt samstarf við háskólasamfélagið á sviði rannsókna og þróunar. Fjöldi manns úr atvinnulífinu, sérfræðingar og fólk úr háskólasamfélaginu heimsækir þróunarsetrið ár hvert en Bláa Lónið telur sig hafa hlutverki að gegna hvað varðar fræðslu um jarðvarmaauðlindina og fjölnýtingu hennar; vörur og starfsemi fyrirtækisins.